News

24.01.2013 11:15: MB Iceland - Registration

HVAÐA SVEIT VERÐUR FULLTRÚI ÍSLANDS Á WACKEN OPEN AIR Í SUMAR?

- Opnað hefur verið fyrir þátttöku í Wacken Metal Battle 2013.

Tónlistarhátíðina WACKEN OPEN AIR í Norður-Þýskalandi þarf varla lengur að kynna fyrir íslenskum rokkurum enda er hátíðin sú stærsta og virtasta í þungarokkinu.

Á hverju ári stendur Wacken fyrir hljómsveitakeppnina METAL BATTLE og verður hún haldin í fimmta sinn á Íslandi í ár og er hún að stimpla sig inn sem einn af glæsilegustu tónlistarviðburðum landsins. 6 sveitir keppa um stóra hnossið: Að komast á Wacken Open Air að spila og taka þátt í lokakeppninni þar sem aðalvinningurinn er útgáfusamningur við NUCLEAR BLAST RECORDS, eins allra stærsta útgáfufyrirtækis heims í þungarokkinu. Sigurvegarinn landar einnig samstarfssamningi við fyrirtækið á bakvið Wacken ásamt fullt af hljóðfærum og græjum.

Sérstök dómnefnd, skipuð bæði innlendum sem erlendum aðilum, sér um að velja sigurvegarann hér á landi og hefur fjöldanum öllum af erlendum gestum, blaðamönnum, tónlistarfólki og öðru mektarfólki verið boðið en hægt er að staðfesta það á þessari stundu að blaðamaður frá hinu rótgróna kanadíska/bandaríska tímariti Brave Words & Bloody Knuckles mætir.

Er ljóst að hér verður öllu tjaldað til. Viðburðinn hefur verið með aðsóknarmeiri viðburðum í þungarokkinu á klakanum síðustu ár en reynslan sýnir að þátttökusveitirnar eiga sín allra bestu gigg í þessari keppni, enda mikið í húfi.

SKILYRÐI TIL ÞÁTTTÖKU
* Bandið þitt er ekki með hljómplötusamning og er ekki á leiðinni að skrifa undir slíkan alveg á næstu mánuðum.
* Bandið þitt getur auðveldlega spilað 30 mínútna sett af frumsömdu efni.
* Bandið þitt spilar þungarokk. Wacken er þungarokksfestival sem rúmar svo gott sem allar gerðir af þungarokki, allt frá hard rokki yfir í argasta dauðarokk, og því er keppnin opin fyrir slíkt einnig.
* Sigurvegari síðustu undankeppni getur ekki sótt um aftur fyrr en eftir ár.
* Sveitir sem hafa tekið þátt áður en unnu ekki mega taka þátt aftur og eru hiklaust hvött til þess.

HVERNIG SÆKIR MAÐUR UM?
Þær sveitir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu skrá sig með því að senda kynningarpakka á netfangið thorokol@ gmail.com. Þær samþykkja um leið reglur keppninnar sem má finna á www.metal-battle.com.

Kynningarpakkinn þarf að innihalda:

a) A.m.k. 3-4 lög á mp3 formi eða sambærilegu.
b) Upplýsingarsíðu á ensku með kynningu á bandi ásamt contact info. Gjarnan á PDF formati.
c) Hljómsveitarmynd í góðri upplausn.
d) Logo sveitarinnar
Í subject línunni skal skrifa: “ Metal Battle 2013: Kynningarpakki”.

Farið verður vandlega yfir umsóknir og mun sérstök nefnd velja 6 sveitir til að keppa. Það gildir því ekki fyrstur kemur fyrstur fær, heldur gæði! Því eru sveitir hvattar til að vanda vel til umsókna, skila tónlist í góðum gæðum og þ.h.

Umsóknarfrestur er til og með 7. febrúar 2013!
« go back